Almennt:
Í grunninn er notast við tvær framsetningar á ratsjárskjámyndum til að sýna staðsetningu og hreyfingu marka (annarra skipa). Afstæð hreyfing (Relative Motion) sýnir hreyfingu marka í afstöðu til eigin skips sem birtist á föstum stað á skjánum. Raunhreyfing (True Motion) sýnir raunverulega hreyfingu eigin skips og marka.
Afstæð hreyfing:
Þegar eigið skip og mark eru á hreyfingu, er færsla (hreyfing) marksins á radarmyndinni ekki raunhreyfing þess. Þegar eigið skip er á hreyfingu, færast kyrr fyrirbæri (t.d. land) til á skjámyndinni á hraða sem er jafn hraða eigin skips og í stefnu sem er í öfuga átt við stefnu eigin skips. Þegar eigið skip er kyrrt færast önnur mörk yfir ratsjárskjáinn í samræmi við raunhreyfingu þeirra.
Skjástilling (Display Orientation) fyrir ratsjá í framsetningunni Afstæð hreyfing:
Algengast er að um tvenns konar skjástillingar megi velja fyrir ratsjá í framsetningunni Afstæð hreyfing; Stefna-upp (Heading-up) og Norður-upp (North-up). Í stillingunni Stefna-upp birtast mörk í mældri fjarlægð og í afstæðri stefnu til stefnu eigin skips. Í stillingunni Norður-upp birtast mörk í mældri fjarlægð og í raunstefnu frá eigin skipi, þá er norður uppi, efst á skjánum. Stundum er talað um Norður-upp sem stöðuga ratsjármynd (Stabilized Display) og Stefnu-upp sem óstöðuga (Unstabilized Display).
Raunhreyfing:
Eigið skip og mörk færast á ratsjárskjánum í samræmi við raunhreyfingu þeirra. Ólíkt því sem er í framsetningunni Afstæð hreyfing, þá er eigið skip ekki á föstum stað á skjánum í framsetningunni Raunhreyfingu. Eigið skip og önnur skip færast um skjáinn í samræmi við raunstefnu þeirra og raunhraða. Kyrrir hlutir (t.d. land) haldast kyrrir (eða því sem næst) á skjánum. Þannig horfir skipstjórnandinn á eigið skip og önnur færast um skjáinn og landið er kyrrt.
Skjástilling (Display Orientation) fyrir ratsjá í framsetningunni Raunhreyfing:
Algengast er að ratsjá í framsetningunni Raunhreyfing sé höfð stöðug, þ.e. Norður-upp.