Brimrún hefur þróað hugbúnað fyrir skjávegg, heildar skjálausn við siglinga- og fiskileitartæki stærri skipa. Inn á skjávegginn má tengja upplýsingar frá öðrum kerfum skipsins eins og myndavélakerfi, vélgæslukerfi, brunaviðvörunarkerfi o.fl. Hugbúnaðurinn er afar notendavænn og einfaldur. Unnið er með hann á snertiskjá.

Skjáveggurinn gerir hefðbundna skjái sem tengjast siglinga- og fiskleitartækjum óþarfa. Notendur, skipstjóri og stýrimenn geta búið til sínar eigin skjámynda samsetningar, skjásnið, og vistað í kerfið og gefið þeim nafn eftir hentugleikum. Þessi notenda skjásnið er svo hægt að kalla fram á skjávegginn eftir þörfum. Fyrirfram vistuð notenda skjásnið geta verið eins mörg og hentar hverjum og einum. Notenda skjásniðunum má breyta hvenær sem er eða eyða.

Föst skjásnið fylgja með hugbúnaðinum. Notendur geta ekki breytt eða eytt þessum föstu skjásniðum. Föstu skjásniðin eru 6:

  • Útstím
  • Landstím
  • Fiskileit
  • Flottrollsveiðar
  • Nótaveiðar
  • Botntrollsveiðar

Skjásnið, fast skjásnið og notenda skjásnið, er valið með snertiskjánum á einfaldan hátt.

Skjáveggur tekur minna pláss í skipsbrúnni en hefðbundin uppsetning á skjáum við allan þann fjölda af tækjum sem hann tengist. Með því að klæðskerasníða skjásniðin þá hámarkast nýtingin á skjásvæðinu. Þannig er hægt að setja saman skjásnið sem eingöngu innihalda þær upplýsingar sem verið er að vinna með hverju sinni. Sjónsvið notandans verður mun þrengra og þægilegra þar sem minna skjásvæði er fyrir framan hann og með meiri upplýsingum.

Í þessum nýja skjávegg er notast við nýrri vélbúnað en í fyrri skjávegg til að tryggja gangöryggi og aukin myndgæði. Nú er ekki lengur um miðlæga kerfislausn að ræða, heldur dreifða kerfislausn.
4k myndmerki er breytt í IP-straum án þjöppunar, það er flutt á ofurháhraða netkerfi (10 Gb/s) og engin myndgæði tapast.
Birtustig skjáveggjarins er stillanlegt í snertiskjánum.

Skjáveggslausnin byggir á því að öll merki frá öllum tækjum eru yfirfærð á tölvutækt form (ip-straum). Þar með er í raun engin takmörk fyrir því hvað settar eru upp margar vinnustöðvar eða eftirlitsskjáir. Hægt er að vera með vinnustöðvar í vélarúmi, við spil stjórnun o.fl. Með góðu netsambandi til sjós býður þessi lausn upp á möguleika á að vera með tengingu inn á eftirlitskerfi í landi og þegar skipin eru í höfn.