Furuno Model 1945

Radarinn er með 10,4“ háskerpu LCD skjá og hentar jafnt í fiskiskip, skemmtibáta, lóðsa, björgunarskip og önnur minni skip.  Furuno er leiðandi framleiðandi í rödurum og þetta nýja tæki sýnir endurvörp enn skýrari en menn eiga að venjast í eldri gerðum.  Innbyggð er sjálfvirk stilling á mögnun (Gain) og sjó- og regntruflunum (Sea/Rain) sem skilar hreinni radarmynd (Noise-free).  Radarinn nær frábærlega góðum endurvörpum af litlum mörkum (Targets, skipum og öðru), bæði úr mikilli fjarlægð og á stuttum skölum.  Nýjar framsetningar á skjámyndum (Display Modes) eru í radarnum sem auka á örugga siglingu við allar aðstæður.

Model 1945 radarinn er mjög einfaldur í uppsetningu og skartar 10,4“ háskerpu LCD skjá með gleryfirborði (Bonded LCD) sem minnkar glampa og kemur í veg fyrir að móða myndist í skjánum. Hann ferlar AIS mörk (AIS Targets) mjög vel og greinilega í skjámynd með möguleika á aðdrætti (Zoom Display) sem birtist í sér glugga.
Hentugt er að velja „Full Screen Mode“ til að skoða stórt hafsvæði umhverfis skipið og nýta allan skjáinn til að sjá enn fleiri endurvörp umhverfis skipið.
Endurbætt sjálfvirk tíðnistilling (Auto Tuning), sjálfvirk stilling á mögnun og sjálfvirk truflanadeyfing gera þessa línu af rödurum sérstaklega einfalda í notkun.
Endurvörp birtast í gulum, grænum og appelsínugulum litum eða í blönduðum litum.


Almennt:

Í grunninn er notast við tvær framsetningar á ratsjárskjámyndum til að sýna staðsetningu og hreyfingu marka (annarra skipa).  Afstæð hreyfing (Relative Motion) sýnir hreyfingu marka í afstöðu til eigin skips sem birtist á föstum stað á skjánum.  Raunhreyfing (True Motion) sýnir raunverulega hreyfingu eigin skips og marka.

Afstæð hreyfing:

Þegar eigið skip og mark eru á hreyfingu, er færsla (hreyfing) marksins á radarmyndinni ekki raunhreyfing þess.  Þegar eigið skip er á hreyfingu, færast kyrr fyrirbæri (t.d. land) til á skjámyndinni á hraða sem er jafn hraða eigin skips og í stefnu sem er í öfuga átt við stefnu eigin skips.  Þegar eigið skip er kyrrt færast önnur mörk yfir ratsjárskjáinn í samræmi við raunhreyfingu þeirra.

Skjástilling (Display Orientation) fyrir ratsjá í framsetningunni Afstæð hreyfing:

Algengast er að um tvenns konar skjástillingar megi velja fyrir ratsjá í framsetningunni Afstæð hreyfing; Stefna-upp (Heading-up) og Norður-upp (North-up).  Í stillingunni Stefna-upp birtast mörk í mældri fjarlægð og í afstæðri stefnu til stefnu eigin skips.  Í stillingunni Norður-upp birtast mörk í mældri fjarlægð og í raunstefnu frá eigin skipi, þá er norður uppi, efst á skjánum.  Stundum er talað um Norður-upp sem stöðuga ratsjármynd (Stabilized Display) og Stefnu-upp sem óstöðuga (Unstabilized Display).

Raunhreyfing:

Eigið skip og mörk færast á ratsjárskjánum í samræmi við raunhreyfingu þeirra.  Ólíkt því sem er í framsetningunni Afstæð hreyfing, þá er eigið skip ekki á föstum stað á skjánum í framsetningunni Raunhreyfingu.  Eigið skip og önnur skip færast um skjáinn í samræmi við raunstefnu þeirra og raunhraða.  Kyrrir hlutir (t.d. land) haldast kyrrir (eða því sem næst) á skjánum.  Þannig horfir skipstjórnandinn á eigið skip og önnur færast um skjáinn og landið er kyrrt.

Skjástilling (Display Orientation) fyrir ratsjá í framsetningunni Raunhreyfing:

Algengast er að ratsjá í framsetningunni Raunhreyfing sé höfð stöðug, þ.e. Norður-upp.


LCD skjáir Furuno með gleryfirborði (Bonded LCD) eru móðuvarðir. Þessi eiginleiki gleryfirborðsins tryggir það að móða kemst ekki inn í skjáinn þrátt fyrir snöggar raka- og hitabreytingar. Tryggt er að ekkert loftrými er til staðar undir gleryfirborðinu og að auki verður skjáskerpan meiri.


Vörulýsing

Tíðniband: X-BAND Sendiorka: 6 kW
Skjástærð: 10.4″ Drægi: 0.0625 – 64 NM
Mótun: Solid State: Nei
Snúningshraði: 24 / 48 rpm Loftnetsstærð: 120 cm
Spenna: 12 – 24 VDC Straumtaka: 8.8 – 4.1 A
UHD: Nei Fjöldi ARPA: 10
FTT: Nei ACE: Nei

PDF Skjöl

Bæklingur Model 1945 Bæklingur
Leiðarvísir Model 1945 Leiðarvísir