VSAT þjónusta
fyrir skip


Net / Sími

Brimrún býður fjarskiptaþjónustu yfir gervitungl, internettengingu og talsamband. Um tvenns konar þjónustu er að ræða, annars vegar tengingu yfir gervitungl Intelsat, IS-907, sem þekur hafsvæðin umhverfis Ísland og yfir til Evrópu (sjá mynd 1) og hins vegar hnattræna tengingu (global coverage) yfir net gervitungla (sjá mynd 2). Þessi gervitungl eru öll staðsett yfir miðbaug jarðar (sjá mynd 3). Sambandið yfir IS-907 gervitunglið er gegnum jarðstöð Intelsat í Fuchsstadt.

Þjónustan nýtist bæði útgerðinni og áhöfninni og fer um aðskilin innrinet um borð, útgerðarnet og áhafnarnet. Þannig, eins og frekast er unnt, er rekstur og kostnaður útgerðarinnar annars vegar og einstaklinga í áhöfninni hins vegar, aðgreindur.

Flestir notast við GSM síma. Fjarskiptaþjónusta Brimrúnar yfir gervitunglið er almennt hugsuð fyrir hafsvæðin utan drægis GSM senda í landi. Þjónustan er að sjálfsögðu virk á öllum tímum á öllu því hafsvæði sem gervitunglið þekur og hentugt er að nota hana fyrir ýmis samskipti, óháð því hvar skipið er statt.

Fjarskiptaþjónustan gengur venjulega undir nafninu VSAT þjónusta, en VSAT er skammstöfun úr ensku fyrir Very Small Aperture Terminal.

Mynd 1Mynd 2Mynd 3Búnaður


Brimrún selur og þjónustar allan þann búnað sem er nauðsynlegur og er notaður við VSAT þjónustu, bæði vélbúnað og hugbúnað (sjá mynd 4).

  • Furuno KU-100 eða FV-110 móttöku-/sendidiskur fyrir gervitungl
  • iDirect módem
  • Palo Alto eining ásamt öryggis- og netstýringarhugbúnaði
  • Tölva ásamt Usergate aðgangsstýringarhugbúnaði
  • GSM 3G/4G beinir (router) fyrir síma og internet
  • Iridium Open Port fyrir síma og internet
  • Símstöð, nettengjanleg
  • Skiptar (switch)

Mynd 4


Jarðstöð Intelsat í Fuchsstadt


Stöðin er sú stærsta sem Intelsat rekur og er staðsett í Þýskalandi. Þar starfa yfir 30 starfsmenn og þar eru yfir 40 loftnet, á stærðarbilinu 6.3 til 32 m. Þar er hýstur búnaður Brimrúnar sem ver internet tenginguna frá árásum og óæskilegri utanaðkomandi umferð sem gæti haft áhrif á gæði síma og hraða netsins.

VSAT tenging útgerðar


Tölvur útgerðarinnar tengjast internetinu gegnum skipti (switch), þaðan í Palo Alto eininguna, í annan skipti, þá módem og svo í Furuno diskinn sem heldur uppi samskiptum við jarðstöð Intelsat í Fuschstadt, yfir gervitunglið. Talsambandið (VoIP) er þannig uppbyggt: Símstöð skipsins tengist beint við Palo Alto eininguna og fer þaðan sömu leið og internetsambandið.

VSAT tenging áhafnar


Tölvur áhafnarinnar tengjast internetinu gegnum skipti (switch), svo í tölvu með net- og aðgangsstýringarhugbúnaði, þaðan í Palo Alto eininguna, í annan skipti, þá módem og svo í Furuno diskinn sem heldur uppi samskiptum við jarðstöðina yfir gervitunglið. Talsambandið (VoIP) er þannig uppbyggt: Símstöð skipsins tengist beint við Palo Alto eininguna og fer þaðan sömu leið og internetsambandið.

3G/4G tenging


Til að halda tölvum útgerðarinnar í internet sambandi gegnum 3G/4G kerfið meðan skipið er innan þess er sett í mastur skipsins 3G/4G loftnet og beinir sem tengist Palo Alto einingunni. Jafnframt tengist 3G/4G símalína við símstöð skipsins. Palo Alto einingin stýrir því að þegar skipið fer útúr 3G/4G sambandi, beinist internetsambandið yfir á VSAT tenginguna. 3G/4G símar einstaklinga í áhöfn skipsins tengjast ekki inn á 3G/4G búnað útgerðarinnar.


Iridium tenging


Iridium búnaðurinn vinnur á öðrum gervitunglum og jarðstöðvum en VSAT búnaðurinn (sjá mynd hér til hliðar). Hann er fyrst og fremst vara síma- og netsamband. Iridium búnaðurinn tengist Palo Alto einingunni og símalínan tengist bæði símstöðinni og sérstökum síma í brúnni. Iridium sambandið getur Brimrún nýtt sem varaleið til að þjónusta VSAT kerfið.

Önnur þjónusta – Afþreying


Aðra þjónustu / afþreyingu er rétt að bjóða samkvæmt óskum útgerðarinnar og / eða áhafnarinnar. T.d.; tvær eða fleiri útvarpsrásir í beinni útsendingu á VSAT kerfinu, dagblöð, íslenskt efni á Sarpi RÚV, sem heimilt er að miðla, og hlaðið er niður á efnisveitu skipsins. Þar getur áhöfnin nálgast efnið gegnum tölvur og snjalltæki, þ.m.t. snjallsjónvörp.

Mynd 5VSAT búnaður


VSAT stendur fyrir Very Small Aperture Terminal. Það er gervihnattabúnaður sem er notaður fyrir móttöku og sendingu á merkjum fyrir tveggja átta samskipti. Þetta gerir hann hagstæðan fyrir samskipti við netkerfi. VSAT er í raun nafn yfir þau tæki sem vinna saman til að geta tekið á móti og sent merki upp í gervihnött. Það eru til margar tegundir af VSAT búnaði fyrir mismunandi tíðnir. Þeim er skipt niður eftir tíðniböndum sem gervihnattakerfið vinnur á eins og C-Band, Ku-Band og Ka-Band.

Dæmi um VSAT Búnað er iDirect X5 Evolution módem og Furuno KU-100 gervihnattarkefi.


VOIP


VoIP stendur fyrir Voice over IP (Internet Protocol). Þetta er almennt nafn á stöðlum sem skilgreina hvernig hljóðmerki eins og tal er mótað til að senda þau yfir netkerfi. Sérhæfður vélbúnaður er hannaður til að styðja þessa staðla og almennar tölvur forritaðar til að vinna með þá. Nútímasímkerfi í landi og á sjó notast mikið við þessa tækni fyrir símtöl.

Dæmi um tæki sem styðja VoIP staðla eru símstöðvar (PBX) og VoIP símar. Forrit sem notast við þessa staðla eru til dæmis Skype og Viper.


Innranet


Netkerfum er venjulega skipt niður í hluta eftir því hvort er verið að tala um ytra- eða innranetkerfi. Ástæðan fyrir þessari aðgreiningu er að byggja auðlesanlegar reglur í kringum þessi aðgreindu net um samskiptamöguleika á milli þeirra. Flókin netkerfi geta haft mörg ytrinet og mörg innrinet eftir þörfum.

Dæmi á aðgreiningu á milli innrinetkerfa er skipsnet og áhafnarnet þar sem skipsnet er hugsað fyrir tölvur skipsins og áhafnarnet fyrir áhöfn til persónulegra notkunar. Aðgreining á milli þessara netkerfa og reglur um samskipti þeirra á milli kemur í veg fyrir truflanir og vírusa.


Aðgangsstýring


Aðgangsstýring er ákveðin tegund af netstjórnunarbúnaði sem sér um að eingöngu ákveðinni netumferð er hleypt í gegn eftir fyrirfram skilgreindum reglum. Settir eru upp notendur í aðgangsstýringunni fyrir áhöfn til að auðkenna sig. Þegar þeir tengjast neti sem fer í gegnum aðgangsstýringuna eru þeir beðnir að skrá sig inn og þannig er hægt að stýra netnotkun hvers einstaklings. Aðgangsstýringar eru til að koma í veg fyrir misnotkun á netumferð.

Dæmi um aðgangsstýringu er forritið Usergate. Usergate býður m.a upp á skýrslugerð sem er brotin niður á notendur og mælir gagnamagns notkun hvers og eins. Þar sem Usergate er í notkun, verður notandi sem hyggst tengjast internetinu, að skrá sig inn gegnum Usergate.
Til að geta tengst internetinu verður notandinn að hafa keypt sér gagnamagns inneign.


3G og 4G


Fjarskiptafyrirtæki bjóða upp á netaðgang yfir símkerfin sín. Þessi samskipti notast við samskiptastaðla og eru þeir algengustu 3G og 4G í dag. 3G/4G beini (router) er komið fyrir í mastri og tengdur við netstýringu. Þannig er hægt að nýta meiri hraða sem 3G/4G tækni býður uppá þegar skip eru innan dreifisvæðis 3G/4G.


Netstýring


Netstýring sér um aðgreiningu nets, stýringu netumferðar, gætir netöryggis og forgangsraðar. Netstýringin úthlutar aðgangi á innri- og ytrinet. Hún gefur innrinetum aðgang að interneti eftir forgangsröðun. Hún forgangsraðar netumferð sem er næmari fyrir sveiflum á netgæðum eins og VoIP umferð sem minnkar hættur á truflunum á símtölum. Netstýring tryggir að símtöl séu skýr og gæði góð.

Dæmi um netstýringarbúnað er Palo Alto búnaður. Palo Alto er framleiðandi á netbúnaði eins og eldveggjum sem virka einnig sem netstýring.


Efnisveita (Media server)


Efnisveita er tölvubúnaður sem tengist netkerfi skipsins. Veitan sækir sjálfkrafa fréttablöð, fréttir og annað sjónvarpsefni, vistar það og gerir aðgengilegt fyrir áhöfn í gegnum vefgátt. Þannig getur áhöfnin nálgast efnið á veitunni þegar henni hentar, fremur en að hver og einn sæki það yfir gervitunglið. Ávinningurinn er augljós, mikil gagnamagns spörun og biðtími hverfandi.


Módem


Módem stýrir gervihnattadiskum á rétt gervitungl og umbreytir merkjum milli VSAT disksins og netkerfis skipsins. Módem eru forrituð til samskipta við búnað í jarðstöð yfir gervitungl og þaðan eru áfram samskipti við internetið. Módem er netgátt skips yfir VSAT tengingu.


Beinir (Router)


Beinir hefur þann tilgang að samtengja mörg net, bæði ytri og innri. Internetið byggist upp og er tengt saman með mörgum beinum sem stýra netumferð.


Skiptir (Switch)


Allar tölvur tengjast saman í gegnum skipti en hann sér um öll samskipti á milli tækja sem í hann eru tengd.


VPN


VPN stendur fyrir „Virtual private network“. Með þeirri tækni er hægt að tengjast innrinetum hvaðan sem er í gegnum internetið. Þetta hentar vel fyrir þjónustuaðila sem geta tengst úr landi og þjónustað skipin rétt eins og þeir væru um borð.


Palo Alto


Palo Alto Networks eru með þeim fremstu í heimi þegar kemur að þróun og framleiðslu net- og öryggislausna. Fyrirtækið braut blað þegar það kom fyrst með „Next generation firewall“ á markað. Lausnir frá Palo Alto finnast víða, hér á Íslandi og um allan heim.


Gjaldmælir


Gjaldmælir sem er staðsettur í skipinu fylgist með símanotkun um borð í þeim tilgangi að notendur geti á einfaldan og þægilegan hátt hringt með sínu einstaka aðgangs númeri. Hver skipverji fær úthlutaða aðgangs númer sem er stimplað inn í símann áður en hann hringir út. Upplýsingar um hversu lengi hann hefur talað í símann eru svo fáanlegar sem PDF skýrsla í lok hvers mánaðar eða í lok túrs. Þessi gögn má síðan nota til að draga frá launum skipverja eftir notkun hans.


Símstöð


Símstöð um borð tengist beint við símkerfi fjarskiptafyrirtækis í landi og allar símalínur fara þá óskiptar inn á símstöðina án þess að þurfa auka tækjabúnað um borð, t.d. símabox. Með þessu býðst öflugra kerfi með fleiri möguleikum, fleiri símalínur og meiri þjónustugæði. Símanúmerin um borð geta verið frá öðru fjarskiptafyrirtæki en aðal fjarskiptafyrirtæki útgerðarinnar án þess að það skapi nokkurn tæknilegan vanda. Ákjósanlegt getur verið að hafa 3 símanúmer fyrir hvert skip (brú, vél, áhöfn) og tvær auka línur með þessum númerum.